Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 113/2023-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 12. mars 2024

í máli nr. 113/2023

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum sé heimilt að ganga að tryggingu varnaraðila að fjárhæð 480.000 kr.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Eftirtalin gögn bárust kærunefnd:

Kæra sóknaraðila, dags. 10. október 2023.

Greinargerð varnaraðila, dags. 2. nóvember 2023.

Athugasemdir sóknaraðila, dags. 16. nóvember 2023.

 

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 6. maí 2022 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að C í D. Ágreiningur er um hvort sóknaraðila sé heimilt að ganga að tryggingu varnaraðila vegna kostnaðar við viðgerðir og þrif sem hann kveður þörf hafa verið á vegna viðskilnaðar varnaraðila.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveður ástand íbúðarinnar við skil hafa verið ófullnægjandi og gerir hann kröfu um að honum sé heimilt að ganga að tryggingu varnaraðila vegna kostnaðar við þrif, málningu og útskipta á glugga/gluggaramma í barnaherbergi. Aðeins sé gerð krafa í trygginguna að fjárhæð 480.000 kr. þrátt fyrir að heildarkostnaður vegna viðgerða og þrifa hafi numið 1.147.520 kr.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili kveður að um hafi verið að ræða eðlileg slit á íbúðinni. Hann hafi ekki valdið neinum skemmdum og hafni kröfu sóknaraðila. 

 

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila eru fyrri sjónarmið ítrekuð.

 

V. Niðurstaða        

Í 8. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að geri leigusali kröfu í tryggingu eða ábyrgð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins samkvæmt 7. mgr. skuli leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafni eða fallist á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Hafni leigjandi kröfu leigusala beri leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella fellur trygging eða ábyrgð úr gildi.

Varnaraðila lagði fram sem tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningi aðila ábyrgðaryfirlýsingu E að fjárhæð 480.000 kr. Leigutíma lauk 30. júní 2023 og gerði sóknaraðili kröfu í trygginguna 26. júlí 2023 sem varnaraðili hafnaði 16. ágúst 2023. Kæra sóknaraðila barst kærunefnd 10. október 2023 en þá var fjögurra vikna frestur varnaraðila liðinn og ábyrgðin úr gildi fallin, sbr. 2. málsl. 8. gr. 40. gr. húsaleigulaga. Er kröfu sóknaraðila hafnað þegar af þeirri ástæðu.

Í 7. mgr. 85. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

ÚRSKURÐARORР       

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

.

Reykjavík, 12. mars 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Víðir Smári Petersen                                       Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum